Hvítasunnudagur

Hvítasunnudagur sem til forna var oftast kallaður hvítadagur, stundum einnig hvítdrottinsdagur, píkisdagur eða pikkisdagur, er ein af þremur megin hátíðum kristinnar kirkju auk páska og jóla.

Upphaflega táknaði hvítasunnan lok páskatímans sem varði í 50 daga talið frá páskadegi og er hvítasunnudagur 49. dagurinn eftir páskadag og tíundi dagurinn eftir uppstigningardag. Var uppstigningunni upphaflega fagnað á hvítasunnudag uns hún var færð og öðlaðist sinn eigin dag.

Hvítasunnan líkt og fleiri hátíðir kirkjunnar eru upphaflega komnar frá gyðingum og meðal þeirra var hún uppskeruhátíð sem haldin var á fimmtugasta degi eftir hina gyðinglegu páska en forngrískt heiti hvítasunnunnar pentekosté heméra merkir einmitt fimmtugasti dagurinn og kemur frá grískumælandi gyðingum.

Af hinu gríska nafni er heiti hennar dregið í ýmsum erlendum málum. Á dönsku kallast hún pinse og á ensku pentecost en á ensku er einnig til sambærilegt nafn því íslenska sem er Whitsunday.

 

Heimild:

Íslenskt almanak