- Skólinn
- Nám og kennsla
- Stoðþjónusta
- Nemendur
- Foreldrar
- Starfsfólk
- Matseðill og skráning í mat
Reglur um umsóknir og innritun í Grunnskóla Fjallabyggðar
Fjallabyggð er eitt skólahverfi og rekur einn grunnskóla. Starfsstöðvar grunnskólans eru tvær, á Siglufirði fer fram skólastarf fyrir 1.-5. bekk og í Ólafsfirði fer fram skólastarf fyrir 6.-10. bekk. Skólarúta gengur á milli starfsstöðva samkvæmt tímatöflu. Í skólarútu er ætíð starfsmaður grunnskólans við gæslu þegar nemendur eru á vegum skólans í rútunni.
Gildissvið
Reglur þessar gilda um umsókn og innritun í Grunnskóla Fjallabyggðar en öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, er skylt að sækja grunnskóla í allt að 10 ár samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 með síðari breytingum. Samkvæmt sömu lögum er sveitarfélögum skylt að sjá til þess að skólaskyld börn sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í grunnskólalögum. Foreldri er hér notað yfir þá sem fara með forsjá barns samkvæmt barnalögum.
Það er foreldra að innrita börn í grunnskóla þegar þau hafa aldur til. Vanræksla á skráningu grunnskólavistar í grunnskóla fyrir barn með lögheimili í Fjallabyggð er barnaverndarmál og tilkynningaskylt. Það gildir sömuleiðis ef nemendur sækja ekki skóla án lögmætra forfalla þrátt fyrir að vera með skólavist.
Innritun og umsókn um skólavist í Grunnskóla Fjallabyggðar
Skólaritari innritar nemendur í 1. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og eru öll börn sem hafa lögheimili í Fjallabyggð og verða sex ára á viðkomandi ári innrituð samkvæmt nafnalista úr íbúaskrá.
Innritun nemenda í aðra bekki skólans og eftir að skóli hefst að hausti fer fram hjá skólaritara sem er staðsettur í starfsstöðinni á Siglufirði. Foreldrar þurfa að innrita barn sitt.
Umsókn um skólavist fyrir nemendur sem eiga lögheimili utan Fjallabyggðar fer í gegnum fræðsluyfirvöld viðkomandi sveitarfélags og Grunnskóla Fjallabyggðar og fræðsluskrifstofu Fjallabyggðar.
Samþykki Grunnskóli Fjallabyggðar og fræðsluskrifstofa Fjallabyggðar skólavist nemenda með lögheimili utan Fjallabyggðar greiðir lögheimilissveitarfélag kostnað vegna skólavistunar samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Umsókn í grunnskóla utan Fjallabyggðar
Nemendur með lögheimili í Fjallabyggð hafa möguleika að sækja skóla utan Fjallabyggðar sæki foreldrar um slíkt til fræðsluskrifstofu. Hægt er að sækja um almennan grunnskóla hvort sem hann er rekinn af öðrum sveitarfélögum eða er sjálfstætt starfræktur. Einnig er hægt að sækja um sérskóla ef viðkomandi nemandi uppfyllir skilyrði sem viðkomandi sérskóli gerir. Samþykki viðkomandi grunnskóli umsókn foreldra fyrir barn sitt þurfa foreldrar að sækja um leyfi fræðsluyfirvalda Fjallabyggðar sem samþykkir eða synjar umsókninni. Samþykki Fjallabyggð slíka umsókn er það forsenda greiðslu kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga af hálfu Fjallabyggðar til viðkomandi skóla utan sveitarfélagsins.
Álitamál
Leiðbeinandi sjónarmið til foreldra og skóla varðandi skólavist eru þessi:
Barn á grunnskólaaldri með lögheimili í Fjallabyggð getur aðeins verið skráð í einn grunnskóla á hverjum tíma óháð því hvort barn hafi búsetu á tveimur heimilum eða jöfn forsjá sé hjá foreldrum, svokölluð tvöföld skólavist er því ekki heimil.
Barn á grunnskólaaldri sem hefur búsetu í Fjallabyggð án þess að hafa lögheimili á Íslandi skal að öllu jöfnu sækja skóla í sveitarfélaginu.
Barn á grunnskólaaldri sem á lögheimili í Fjallabyggð en dvelur erlendis yfir lengri tíma (t.d. heilt skólaár) skal að öllu jöfnu sækja grunnskóla í viðkomandi landi. Í sumum tilvikum er mögulegt að veita undanþágu á skólasókn frá grunnskóla þótt dvalið sé í útlöndum vegna sérstakra aðstæðna eins og ef um er að ræða tímabundna dvöl, ekki er um fasta búsetu erlendis að ræða og mögulega fleiri atriði. Um slíkt skal sótt til skólastjóra grunnskólans sem leitar ráðgjafar fræðsluskrifstofu ef hann metur svo.
Ekki er heimilt að sækja fjarnám frá grunnskóla nema í einstaka námsgrein eða í stuttan tíma vegna fjarveru s.s. læknisferða eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna.
Málefni barns á grunnskólaaldri með lögheimili í Fjallabyggð skal vísað til barnaverndarnefndar Úteyjar ef það sækir ekki grunnskóla (er jafnvel erlendis) og það er ekki með sérstaka undanþágu frá skólasókn.
Gestanemendur
Gott skólastarf byggir á stöðugleika og öryggi. Þegar gestanemendur koma inn í bekki getur það haft í för með sér óöryggi fyrir einhverja nemendur, skipulag getur raskast og órói skapast meðal nemenda bekkjarins sem hefur áhrif á námsaðstæður nemenda og starfsaðstæður kennara.
Almennt er ekki tekið á móti gestanemendum. Ef brýn nauðsyn er fyrir hendi s.s. alvarleg veikindi í fjölskyldum getur skólastjóri gert undanþágu frá þeirri meginreglu.
Nemendur sem eru fyrrum nemendur skólans og langar að heimsækja fyrrum bekkjarfélaga hafa samband við umsjónarkennara sem tekur afstöðu til beiðninnar.
Skólavistunarvöktun
Fræðsluskrifstofa Fjallabyggðar er með vöktun á lögheimilisskráningu barna í upphafi hvers skólaárs til að tryggja að öll börn á grunnskólaaldri með lögheimili í Fjallabyggð séu með skólavist á vegum sveitarfélagsins, það er í grunnskóla sveitarfélagsins eða öðrum skólum sem sveitarfélagið hefur samþykkt í einstaka tilvikum.
Samþykkt í Bæjarstjórn Fjallabyggðar 12.03.2020.