Úrslit í ljóðasamkeppni og myndir frá Barnamenningarhátíð Fjallabyggðar

Þórarinn, Víkingur, Kolbrún og Kolfinna. Á myndina vantar Sylvíu Rán.
Þórarinn, Víkingur, Kolbrún og Kolfinna. Á myndina vantar Sylvíu Rán.

Þann 17. nóvember sl. tóku nemendur 8.-10. bekkjar þátt í hinni árlegu ljóðasamkeppni Haustglæður. Að þessu sinni notuðu þátttakendur listaverk nemenda í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem kveikjur að ljóðum. Alls urðu til um 70 ljóð og fimm manna dómnefnd valdi svo úr þeim. Hver aðili í dómnefndinni valdi fimm ljóð sem honum leist best á og þegar val allra var skoðað kom í ljós að fjögur ljóðannna fengu þrjú atkvæði eða fleiri. Verðlaunaafhending fór fram á Ljóðasetrinu þann 15. desember, þar sem flestir nemendur viðkomandi bekkja voru viðstaddir.

Þórarinn Hannesson, forstöðumaður setursins, flutti nokkur ljóð í upphafi athafnarinnar og tilkynnti svo um úrslit.

Hér má sjá verðlaunaljóðin:

 

Ég og laufið

Ég sá lítið lauf í stórri tjörn.

Við erum frekar lík, ég og laufið.

Við erum ein, við erum hægt og rólega að 

drukkna.

Við vitum bæði að enginn mun bjarga okkur.

Við erum ein í stórri tjörn af tilfinningum.

    Kolbrún 10. bekkur

 

 

Regnhlífin

Rigning sorgarinnar dynur á mér.

Ég stend kyrr.

Ég stend grafkyrr úti og stari út í tómið.

Ég spenni upp regnhlíf huggunar,

hún bægir dropunum burt.

Ég er ekki lengur sorgmædd,

regnhlífin bjargaði mér.

    Kolfinna 9. bekkur

 

Stelpan á bak við grímuna

Hver er á bak við grímuna?

Stelpan sem kemst ekkert án hennar. 

,,Gríman er eins og partur af mér,

hún felur allar tilfinningar.”

Hver er á bak við grímuna?

Stelpan sem aldrei brosir.

    Sylvía Rán 10. bekkur

 

Gríma

Skýin eru að gráta,

ég mála á mig annað andlit

til að mála yfir vanlíðan mína.

Allir í kringum mig mála á sig grímu

þó að þeim líði vel.

Ég veit ekki af hverju ég geri þetta,

ég bara geri það. 

Ég er fastur undir grímunni.

Ég kemst ekki í burtu.

    Víkingur 9. bekkur

 

Í verðlaun voru ljóðabækur og gjafabréf frá veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Það eru Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra sem styrkja ljóðahátíðina Haustglæður og að henni standa Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetur Íslands. Þetta er 15 árið í röð sem hún er haldin.

 

Barnamenningardagar Fjallabyggðar fóru fram dagana 16. – 19. nóvember og markmiðið með þeim var að efla menningarstarf barna, gefa þeim tækifæri til að kynnast flóru menningar og lista í samfélaginu og sem þátttakendur að rækta hæfileika sína til listsköpunar, veita þeim hvatningu til skapandi hugsunar og kynna þeim heim og umhverfi menningar og lista.

Sjá nánari upplýsingar og myndir hér: Barnamenningardagar í Fjallabyggð

 Fleiri myndir hér