Úrslit í ljóðasamkeppni Haustglæðna
20.12.2022
Líkt og undanfarin 14 ár var ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar liður í ljóðahátíðinni Haustglæður. Nemendur komu í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga um miðjan nóvember og nýttu listaverk nemenda og kennara MTR sem kveikjur að ljóðum. Eftir nokkur góð ráð frá stjórnanda hátíðarinnar og vangaveltum yfir listaverkunum urðu til um 70 ljóð hjá þeim rúmlega 50 nemendum sem tóku þátt. Fimm manna dómnefnd fór svo yfir afraksturinn og valdi úr þau ljóð sem þóttu skara fram úr.
Sl. föstudag fjölmenntu nemendur svo í Ljóðasetrið því nú var komið að verðlaunafhendingu. Að þessu sinni voru það þrjár stúlkur, sem allir eru í 9. bekk, sem áttu bestu ljóðin að mati dómnefndarfólks. Þessar stúlkur eru: Aníta Heiða Kristinsdóttir, Katrín Hugljúf Ómarsdóttir og Natalía Perla Kulesza. Þær hlutu að verðlaunum ljóðabækur og gjafabréf frá Sigló-veitingum.
Hér eru nokkrar myndir frá verðlaunaafhendingunni, sem Katrín Hugljúf gat því miður ekki verið viðstödd, en mynd af henni fylgir með og fulltrúi hennar tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.
Hér getur að líta verðlaunaljóðin, sem ort voru útfrá þremur mismunandi listaverkum, og nöfn höfunda:
Frelsi
Við byrjum ung
bundin föst með spotta.
Við horfum upp í himininn,
dáumst að blárri fegurð.
Nú orðin eldri
en ennþá föst.
Bíðum og bíðum
eftir að losna.
Við bíðum og bíðum,
föttum svo
að við vorum með skærin
allan þennan tíma.
- Katrín Hugljúf Ómarsdóttir
Verum þakklát
Verum þakklát fyrir það sem við höfum.
Hjálpum þeim sem þurfa á hjálp að halda,
það eiga ekki allir skjól né mat.
En það eru sumir sem hafa þetta allt.
Verum þakklát fyrir það sem við höfum.
Augað
Augað horfir á fegurð þína.
Þetta græna fallega auga.
Það blæðir úr fegurð þinni.
Það grætur úr fegurð þinni.
Þórarinn, Aníta Heiða og Natalía Perla
Aníta Heiða og Natalía Perla
Katrín Hugljúf (aðsend mynd)
Þórarinn og Natalía Perla
Þórarinn og Aníta Heiða
Þórarinn og Sveinn (fulltrúi fyrir hönd Katrínar Hugljúfar)
Beðið eftir úrslitum