- Skólinn
- Nám og kennsla
- Stoðþjónusta
- Nemendur
- Foreldrar
- Starfsfólk
- Matseðill og skráning í mat
Ljóðasetrið og Umf. Glói hafa staðið að ljóðahátíðinni Haustglæður í 17 ár. Er hún langlífasta ljóðahátíð landsins og einkennismerki hennar er þátttaka barna og ungmenna. Fastur liður í hátíðinni er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Undanfarin ár hafa nemendur þessara bekkja komið í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga (MTR) og fengið kveikjur að ljóðum af listaverkum í sal skólans. Listaverkin hafa gjarnan verið eftir nemendur MTR.
Að þessu sinni urðu til rúmlega 70 ljóð og beið 5 manna dómnefndar það erfiða verkefni að velja þau bestu. Fjögur ljóð hlutu atkvæði þriggja dómnefndarfulltrúa og voru höfundar þeirra verðlaunaðir á dögunum. Var það samróma álit dómnefndar að ljóðin væru djúp og íhugul og ristu dýpra en oft áður. Þetta voru þau Ari Margeir R. Jónsson, Sigurlaug Sturludóttir, Silja Þorvaldsdóttir og Tinna Hjaltadóttir.
Verðlaunin voru ljóðabækur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson og Þórarin Hannesson og gjafabréf frá veitingastaðnum Höllinni á Ólafsfirði. Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkja ljóðahátíðina Haustglæður (heimild: Ljóðasetrið).
Hér eru svo verðlaunaljóðin:
Tónlist
Tónlistin dansar um,
tónlist sem er aðeins hér.
Ég horfi eftir ganginum,
tónlist sem enginn heyrir
nema ég.
Ari Margeir R. Jónsson 10.b.
Friður og ró
Ég stend hér við vatnið fagra,
gróðurinn er meiri en áður,
fjalladýrðin sem blasir við mér
er óvenjuleg.
Ég upplifi frið og ró,
er þetta draumur?
Ég vildi að ég gæti bara verið hér
og flúið veruleikann.
Tinna Hjaltadóttir 9.b.
Hann starir
Hann starir inn í litríka myrkrið
sem er með óteljandi liti.
Þessir fallegu litir
gefa myrkrinu ljós.
Silja Rún Þorvaldsdóttir 9.b.
Gríman
Gríman hún felur andlit mitt,
felur fegurð mína,
felur gallana mína,
felur mig.
Sigurlaug Sturludóttir 9.b.
Til hamingju Ari, Tinna, Silja og Sigurlaug
Tjarnarstígur | 625 Ólafsfjörður Norðurgata | 580 Siglufjörður Sími á skrifstofu: 464-9150 |
Skrifstofa skólans er opin frá
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda á Mentor eða í síma 464-9150/ ritari@fjallaskolar.is
Kt. 580706-0880