- Skólinn
- Nám og kennsla
- Stoðþjónusta
- Nemendur
- Foreldrar
- Starfsfólk
- Matseðill og skráning í mat
Frétt fengin af heimasíðu Ljóðaseturs Íslands.
Fjölmenni var við verðlaunaafhendingu í ljóðasamkeppni sl. fimmtudag.
Ljóðasetrið og Umf. Glói hafa staðið að ljóðahátíðinni Haustglæður í Fjallabyggð í 18 ár. Er hún langlífasta ljóðahátíð landsins og einkennismerki hennar er þátttaka barna og ungmenna.
Fastur liður í hátíðinni er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Undanfarin ár hafa nemendur þessara bekkja komið í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga (MTR) og fengið kveikjur að ljóðum af listaverkum í sal skólans. Listaverkin hafa gjarnan verið eftir nemendur og kennara MTR og svo var líka í ár.
Að þessu sinni urðu til um 80 ljóð og beið 5 manna dómnefndar það vandasama verkefni að velja þau bestu. Fjögur ljóð hlutu atkvæði þriggja dómnefndarfulltrúa eða fleiri og voru höfundar þeirra verðlaunaðir í gær á Ljóðasetrinu og voru flestir nemendur bekkjanna og kennarar þeirra viðstaddir.
Svo skemmtilega vildi til í ár að verðlaunahafarnir komu úr öllum þremur bekkjunum og kynjahlutfallið var jafnt. Verðlaunin voru ljóðabækur og gjafabréf frá veitingastöðum í Fjallabyggð. Gerði Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðasetursins, grein fyrir úrslitunum, flutti verðlaunaljóðin og nokkur ljóð að auki og afhenti verðlaunin við góðar undirtektir viðstaddra. Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkja ljóðahátíðina Haustglæður.
Hér eru nöfn verðlaunahafanna: Hersteinn Borgarsson 8. bekk, Sóley Birna Arnarsdóttir 9. bekk, Silja Rún Þorvaldsdóttir og Þorsteinn Birgis Valdimarsson úr 10. bekk. Óskum við þeim innilega til hamingju og þökkum öllum þeim sem tóku þátt. Á myndirnar sem fylgja fréttinni vantar Silju Rún.
Hér eru vinningsljóðin og nöfn höfunda:
Húsin
Hús minninganna fljóta í burtu,
sum brotin, sum ekki.
Fjölskyldan sem bjó í húsinu
er farin.
Þorsteinn Birgis Valdimarsson 10. bekk
Húsin
Húsin standa þétt,
þar eiga margir heima.
Húsin standa svo þétt
að þau tala við hvort annað
og sjá inn um gluggana
hjá hvort öðru.
Sóley Birna Arnarsdóttir 9. bekk
Norðurljósin dansa
Norðurljósin dansa
mjúk á himni
eins og draumur
sem enginn sér.
Í þögninni talar ljósið
og segir mér
að allt verði ljós.
Silja Rún Þorvaldsdóttir 10. bekk
Hugur minn
Hugur minn er eins og sjórinn,
stundum rólegur
en stundum ekki.
Bátar eru eins og tilfinningar mínar,
stundum á miðju hafi
en stundum nálægt landi.
Líf allra er sérstakt
reyndu að lifa þínu besta lífi.
Hersteinn Borgarsson 8. bekk
Tjarnarstígur | 625 Ólafsfjörður Norðurgata | 580 Siglufjörður Sími á skrifstofu: 464-9150 |
Skrifstofa skólans er opin frá
|
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda á Mentor eða í síma 464-9150/ ritari@fjallaskolar.is
Kt. 580706-0880