Tveir af þremur vinningshöfum í Vísubotni 2019 komu frá Grunnskóla Fjallabyggðar

Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRúv, efnir til keppninnar ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu. Nemendur spreyttu sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Alls bárust Menntamálastofnun 535 vísubotnar frá 21 skóla víðs vegar á landinu. Frá yngsta stigi bárust samtals 256 vísubotnar, 182 frá miðstigi og 97 botnar frá unglingastigi. Það er sönn ánægja að tilkynna að Aron Óli Ödduson í 4.bekk var hlutskarpastur á yngsta stigi og Helena Reykjalín Jónsdóttir í 9.bekk var hlutskörpust á unglingastigi. Í fyrsta sinn í níu ára sögu keppninnar koma tveir vinningshafar frá sama skóla. Stórkostlegur árangur hjá Aroni Óla og Helenu.

Hér má sjá vísubotnana og vinningshafana:

Heim ég fer með létta lund,

leik mér eftir skóla.

Fæ mér drykk og fer í sund,

fer svo út að hjóla.

 

                        

Manna verk er mengun öll, 

margt sem þarf að laga.

Stöndum upp og stöðvum spjöll,

stefnum á betri daga.

 

Menntamálastofnun birti einnig  nokkra vísubotna sem taldir voru meðal þeirra bestu og hér átti Grunnskóli Fjallabyggðar fleiri fulltrúa:

Heim ég fer með létta lund,

leik mér eftir skóla.

Nenni ekki að fara í sund,

hjóla heim til hans Óla.

Erling Þór Ingvarsson, 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Heim ég fer með létta lund,

leik mér eftir skóla.

Fer svo beint á strákafund

síðan út að hjóla.

Sverrir Freyr Lúðvíksson, 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Heim ég fer með létta lund,

leik mér eftir skóla.

Fer svo eftir smá í sund

en fyrst ég ætla að hjóla.

Mundína Ósk Þorgeirsdóttir, 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Nóttin lengist, nálgast haust,

nístir kaldur vindur.

Flestir bátar fara í naust,

fenna úti kindur.

Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir, 8. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Manna verk er mengun öll,

margt sem þarf að laga.

Ruslið út um víðan völl,

vond er þessi saga.

Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir, 8. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Nóttin lengist, nálgast haust,

nístir kaldur vindur.

Árið styttist endalaust,

ótti marga bindur.

Helena Reykjalín Jónsdóttir, 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Manna verk er mengun öll,

margt sem þarf að laga.

Nær hún upp í nyrstu fjöll,

nú er búin saga.

Margrét Sigurðardóttir, 8. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

 

Manna verk er mengun öll,

margt sem þarf að laga.

Hylur bæði hús og fjöll

og heiminn alla daga.

Isabella Ósk Stefánsdóttir, 8. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.