Skipulag næstu daga

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með deginum í dag, 16. mars, í þeirri von að hægja megi á útbreiðslu COVID-19. Ákvörðun heilbrigðisráðherra nær til takmörkun á skólastarfi í fjórar vikur frá og með deginum í dag 16. mars. Í leik- og grunnskólum verður sett á hámark á fjölda nemenda í kennslu í sömu stofu og tryggt að nemendur séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og mögulegt er. Af þessum sökum verða miklar breytingar á skólastarfi Grunnskóla Fjallabyggðar og er hér farið yfir þær. Nánari upplýsingar eru sendar í tölvupósti til hvers bekkjar fyrir sig.

Skipulag næstu daga

1. – 7. bekkur

Kennt verður í 1. – 7. bekk alla daga frá kl 08:30-12:30
Skólaakstur fellur niður og verða nemendur því í kennslu í sínum byggðarkjarna.

Kennt verður í hópum og ákveðnir starfsmenn stýra allri vinnu með hverjum hópi fyrir sig. Ekki verður samgangur á milli hópa og reynt að afmarka hvern stað fyrir sig í skólabyggingunum. Sundkennsla og íþróttir verða ekki með hefðbundnu sniði, þeir starfsmenn sem munstraðir eru á hvern hóp sjá um allt uppbrot, frímínútur og hádegismat.

Tjarnarstígur:

1.og 2. bekkur verða saman

3.bekkur , 4.bekkur og 5.bekkur verða stakir hópar hver

6. og 7.bekkur verða saman.

Siglufjörður:

1.bekkur, 2.bekkur, 3.bekkur, 4.bekkur, 5.bekkur verða stakir hópar hver.

6. og 7. bekkir verða saman

Hádegismatur verður ekki borinn fram í matsal heldur tekur hver hópur mat í sinni stofu. Ekki verður boðið upp á hafragraut á þessu tímabili. Mælst er til að nemendur hafi vatnsbrúsa með sér í skólatöskunni.

Nemendur verða ekki saman í frímínútum nema innan árgangs og þá á skilgreindum svæðum. Hver bekkur sér. Það verða því ekki venjulegar frímínútur heldur skipulögð útivera með kennara.

Frístund og Lengd viðvera fellur niður.

Ekki verður hægt að bjóða upp á frístund, né lengda viðveru á meðan þetta ástand varir en þeir foreldrar sem þegar hafa greitt fyrir lengda viðveru munu eiga það inni. 

Nemendahópar ganga ekki allir inn á sama stað heldur munum við nýta neyðarútganga og allar aðkomur í húsið sem hægt er og í sumum tilfellum þurfa nemendur að koma á misjöfnum tíma að skólahúsinu og þá beint að þeim inngangi sem þeim er vísað á þar sem að starfsmaður þeirra hóps tekur á móti þeim. Mjög brýnt er að foreldrar virði þær tímasetningar og nemendur komi ekki að skólahúsinu fyrr en á þeirra tíma og alls ekki að þeir blandist í leik á skólalóð.  Skór og útifatnaður verður aðgreindur eins og hægt er og skólahúsnæðið ekki opið eins og alla jafnan.

8. – 10. bekkur - fjarkennsla

Til þess að geta haldið úti skóla alla daga og tekið á móti nemendum þannig að rúmt sé um þá og starfsfólk hefur verið ákveðið að unglingastig, (8.-9. -10.)  muni taka sitt nám í fjarkennslu.  Fyrirkomulaginu verður þannig háttað að nemendur nota google classroom og  verða að vera skráðir inn frá kl 8:30 - 12:00 til að fá mætingu.  Inn á google classroom – fjarkennsla 8.-10. bekkur, verða leiðbeiningar um innskráningu og verkefni.

Viðfangsefnin verða fjölbreytt, nemendur þurfa að hafa einhverjar kennslubækur en einnig verður námsefni á vef. Kennarar á unglingastigi verða til taks á þessu  tíma inn á vefnum og í samskiptum við nemendur og einnig verður hægt að senda skilaboð í tölvupósti, messenger eða öðru sem hentar. Þetta fyrirkomulag er í þróun og gæti tekið breytingum. Umsjónarkennarar unglingastigs munu verða í sambandi við sína nemendur og foreldra. Nemendur í unglingadeild sem þegar hafa greitt fyrir mat sinn í  mars munu eiga það inni.

 

Umgengni um skólahúsin takmörkuð

Takmörkuð umgengni verður um skólahúsin og biðjum við foreldra og aðra sem þurfa að ná á okkur að hafa samband með öðrum hætti.
Frekari upplýsingar um starfsfólk á hverri stöð, mætingu og innkomu í skólahúsið verða sendar með sérstökum pósti á viðkomandi bekki/hópa. 

Við vonumst til að keyra þetta skipulag til að byrja og höfum sett allt starfsfók okkar undir en það má lítið út af bregða svo ekki verði hægt að standa við þetta og áskiljum við okkur rétt til að gera breytingar með skömmum fyrirvara ef þörf er á.

Grunnskólinn vonast eftir góðu samstarfi við aðstandendur nemenda í þessum fordæmalausu aðstæðum sem við nú erum í.

Á heimasíðu Fjallabyggðar má sjá upplýsingar um skerðingar á starfsemi annarra stofnana sveitarfélagsins.