PALS - aðferð við lestrarkennslu

Nýlega fóru kennarar við skólann á námskeið í PALS kennsluaðferðinni sem á íslensku hefur verið þýdd "Pör að lesa saman". Hún byggir á því að nemendur læra ákveðna aðferð til að vinna saman tveir og tveir á skipulagðan hátt á jafningjagrundvelli m.a. í lestrarnámi. Þeir fylgjast hvor með öðrum og leiðrétta villur og þjálfa lesskilning undir handleiðslu kennara. Sú aðferð sem hefur verið notuð við lestrarkennslu í Grunnskóla Fjallabyggðar er Byrjendalæsi, aðferð sem þróuð var við Háskólann á Akureyri sem ásamt hljóðlestraraðferðinni hefur gagnast mjög vel í skólanum okkar. En betur má ef duga skal og hafa rannsóknir sýnt að PALS aðferðina er hægt að samþætta við aðrar lestrarkennsluaðferðir með góðum árangri, nemendur taka góðum framförum bæði í lesfimi og lesskilningi. Þessa námstækni geta nemendur svo yfirfært á aðrar greinar t.d. náttúrufræði seinna á skólagöngunni.