Norræna skólahlaupið á morgun

Á morgun er fyrirhugaður hreystidagur og er helsta  viðfangsefnið að taka þátt í Norræna skólahlaupinu. Dagskrá er á þá leið að fyrstu tvo tímana er venjuleg kennsla, síðan halda nemendur yngri deildarinnar á Siglufirði með rútu til Ólafsfjarðar þar sem nemendur 1. – 7. bekkjar munu eiga daginn saman við hlaup, sund og leiki í salnum.   Nemendur eldri deildar byrja að hlaupa/ganga um kl. 10 og er lágmarksvegalengd hvers nemenda 5 km en þeir viljugustu geta farið allt að 10 km. Keppt verður milli bekkja hverjir leggja lengsta vegalengd að baki. Eftir hádegi verður sundkeppni milli bekkja  og skóladegi lýkur kl. 13.30.

Nemendur þurfa að vera klæddir þannig að þeir geti tekið þátt í útihlaupi og með sundföt. Gott að hafa með þurr föt og skó til skiptanna ef við verðum svo óheppin að fá rigningu á morgun.

Norræna skólahlaupið fer  fram á öllum Norðurlöndunum nú á haustdögum. Er þetta í 28. skiptið sem Íslendingar taka þátt í þessu samnorræna hlaupi. Íslendingar hafa staðið sig mjög vel í samanburði við aðrar norrænar þjóðir, þar sem allt að því helmingur nemenda í grunnskólum landsins hefur hverju sinni tekið þátt í hlaupinu.

Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að æfa hlaup og aðrar íþróttir reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.