Meðal 5 efstu í Myndbandakeppni grunnskólanna 2010

Nú eru úrslit í Myndbandakeppni grunnskólanna 2010 ljós.  Nemendur í  Grunnskóla Fjallabyggðar áttu þar myndband meðal þeirra 5 efstu í yngri flokknum.   

Höfundar þess voru þær stöllur Sigríður Alma Axelsdóttir og Erla María Sigurpálsdóttir í 7. bekk sem sendu inn myndbandið Óveður sem þær tóku upp í Ólafsfirði.  Léku þær sjálfar aðalhlutverkin og fengu fleiri með sér í minni hlutverk.  Einnig sáu þær að mestu um kvikmyndatöku og klippingu.

Dómnefnd keppninnar skipuðu þau Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Valdís Óskarsdóttir, klippari og kvikmyndagerðarkona, Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands og Helga Viðarsdóttir, markaðsstjóri 66°NORÐUR.