Haustglæður - Úrslit i ljóðasamkeppni

Líkt og undanfarin ár tóku nemendur í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar þátt í ljóðasamkeppni sem er þáttur í ljóðahátíðinni Haustglæður sem Umf Glói og Ljóðasetur Íslands standa fyrir. Samkeppnin fór fram um miðjan október og samkvæmt venju var ort út frá listaverkum úr listaverkasafni Fjallabyggðar. Nemendur heimsóttu ráðhúsið þar sem komið hafði verið upp sýningu með verkum eftir konur, í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna. Eftir að hafa skoðað verkin settust nemendur niður og nýttu það sem þeir lásu út úr myndunum sem kveikjur að ljóðum. Alls urðu til rúmlega 70 ljóð með þessum hætti.

Dómnefnd fór síðan yfir afraksturinn en hún var skipuð fimm manns, einum frá Akureyri, einum frá Dalvík, tveir komu frá Ólafsfirði og sá fimmti Siglfirðingur. Fóru nefndarmenn yfir ljóðin hver fyrir sig og hver átti að velja þau fimm ljóð sem honum hugnaðist best. Dómarar voru furðanlega sammála því eitt ljóðanna fékk fullt hús stiga og þrjú þeirra fengu fjögur atkvæði.

Þann 24. nóv var síðan komið að verðlaunaafhendingu sem fór fram í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði. Það var ánægjulegt að vinningshafar komu úr öllum þremur bekkjum deildarinnar. Fengu þeir ljóðabækur og gjafkort á veitingastaði í Fjallabyggð að launum. Vinningshafar voru: Celina Aleksandra Borzymowska 8. bekk, Eva María Sigurþórsdóttir  9. bekk, Elín Helga Þórarinsdóttir og Helga Dís Magnúsdóttir úr 10. bekk.  

Sjá myndir hér

Vinningsljóðin