Guðrún iðjuþjálfi og Bjarkey náms- og starfsráðgjafi í heimsókn í alla bekki eldri deildar.

Í morgun, þriðjudaginn 4. okt., fóru Guðrún iðjuþjálfi og Bjarkey náms- og starfsráðgjafi í heimsókn í alla bekki eldri deildar. Iðjuþjálfi upplýsti nemendur um ýmislegt tengt skólatöskunni og áhrif þess ef að hún væri einungis höfð á annarri öxlinni eða sæti rangt á bakinu. Einnig ráðlagði iðjuþjálfi nemendum um æskilega setstöðu og áhrif þess að sitja lengi í sömu stöðu við vinnu. Þá ræddi hún um hvað sé gott að hafa í huga við val á skólatösku, að taskan sé ekki alla daga með öllum námsbókunum í heldur hvernig sé æskilegast bera töskuna og raða í hana. Nemendur voru hvattir til að prófa að hafa tölvumúsina í vinstri hönd, (þeir sem eru rétthentir) og öfugt fyrir hina, til að jafna álag á handleggi og herðar.  Sjá meira neðar.  

Náms- og starfsráðgjafi kynnti nemendum sína þjónustu sem m.a. felur í sér aðstoð við námstækni, almennt skipulag námsins og aðferðum við að draga úr prófkvíða. Náms- og starfsráðgjafi veitir einnig upplýsingar um nám og störf, aflar gagna og gerir þau aðgengilegri fyrir nemendur.  Í 10. bekk verður boðið uppá áhugasviðskönnun í janúar 2012 og í framhaldinu koma nemendur í viðtal til náms- og starfsráðgjafa til að lesa úr niðurstöðunni og fá aðstoð við námsval og/eða umsókn í framhaldsskóla. Nemendur geta komið einir eða fleiri saman og voru minntir á að náms- og starfsráðgjafi er þeirra trúnaðarmaður og fer með öll samskipti sem trúnaðarmál.