Forinnritun 10. bekkinga í framhaldsskóla

  Forinnritun 10. bekkinga fer fram dagana 21. mars til 1. apríl. Lokainnritun verður 3. til 9. júní. Innritun fer fram á netinu, á slóðinniwww.menntagatt.is. Á sama svæði má fá upplýsingar um innritunina og nám í framhaldsskólum. Nemendur sem eru að ljúka grunnskóla eiga rétt á skólavist í framhaldsskóla.  Nemendur í tilteknum grunnskólum hafa forgang að skólavist í ákveðnum framhaldsskólum með hliðsjón af nágrenni við skóla, hefðum og samgöngum. Lágmark 40% nýnemaskulu vera úr forgangsskólum, þ.e. sæki svo margir sem uppfylla inntökuskilyrði, um viðkomandi skóla. Nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar og Grunnskóla Dalvíkurbyggðar eiga forgang að skólavist í Menntaskólann á Tröllaskaga og í Verkmenntaskólann á Akureyri. Til nánari skýringar:  

 



  •  

  • Allir nýnemar skulu velja sér námsbraut og tvo framhaldsskóla, fyrsta val og annað val. Unnið er samhliða úr umsóknum um valda skóla. Ef umsóknirnar eru báðar samþykktar þá gildir fyrsta val.

  • Skilyrði fyrir forgangi að skólavist er að uppfylla inntökuskilyrði þess skóla og/eða námbrautar sem sótt er um.

  • Val á forgangsskóla eykur líkur á að unnt sé að verða við umsókn.

  • Ekki er skylt að velja forgangsskóla, öllum er frjálst að velja þann  framhaldsskóla sem þeir helst vilja.

  • Forgangur tekur ekki til sérhæfðra verknáms- og listnámsbrauta.

  • Framhaldsskólar taka tillit til sérstakra aðstæðna nýnema eftir því sem kostur er, t.d. vegna breyttrar búsetu fjölskyldu, enda sé þess óskað í umsókn.

  • Öllum umsækjendum sem koma beint úr grunnskóla verður tryggð skólavist

  •  

 

Tekið skal skýrt fram að nemendum er frjálst að sækja um hvaða skóla sem vera skal um land allt.

Hyggilegt er þó að hafa heimaskóla til vara ef hann er ekki aðalval nemenda til að auka líkur enn frekar á skólavist. Ítrekað skal að forgangur er bundinn við tiltekna grunnskóla en ekki lögheimili.

Nemendur hafa fengið bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu afhent. Í bréfinu er lykilorð sem veitir persónulegan aðgang að innrituninni. Þar eru einnig upplýsingar um innritunina og annað er varðar framkvæmdina sjálfa. Ef lykilorð týnist er hægt að fá það hjá námsráðgjafa skólans sem er með lista yfir veflykla nemenda í 10. bekk skólans eða sækja um nýtt á innritunarvef Menntagáttar. Umsækjendur fá staðfestingu á að umsókn hafi verið send inn rafrænt í tölvupósti. Staðfestinguna skal geyma vel en hún staðfestir að umsóknin sé komin í ferli og verði afgreidd, staðfestingin gildir líka sem kvittun fyrir því að umsókn hafi verið send.

Þarf að senda eitthvað með umsóknunum?
Nemendur 10. bekkjar þurfa ekki að senda afrit af prófskírteinum með umsóknum. Einkunnirnar verða sendar rafrænt til þess skóla sem sótt er um.
Vottorð eða sérstakar upplýsingar um nemendur, sem ekki er að finna á rafræna umsóknareyðublaðinu, geta nemendur hengt við umsókn sem fylgiskjal eða sent í pósti til skóla.

Aðstoð og ráðgjöf
Mikill annatími er framundan í framhaldsskólum og því gott fyrir 10. bekkinga að vera tímanlega þurfi þeir upplýsingar um eða frá þeim skóla sem þeir hyggjast sækja um nám í. Námsráðgjafi Grunnskóla Fjallabyggðar er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem aðstoðar nemendur eftir þörfum og hægt er að hafa samband við hana á netfangið bjarkey@fjallaskolar.iseða í síma 464-9167.