Áhrifaríkur fyrirlestur

Í dag hélt Kristján Guðmundsson frá Dalvík áhrifaríkan fyrirlestur fyrir eldri deild skólans, í boði Sparisjóðs Siglufjarðar, og sátu nemendur og hlustuðu af athygli í þá klukkustund sem fyrirlesturinn varði. Kristján lenti í mjög alvarlegu slysi í löndun á Dalvík fyrir nokkrum árum, þegar fiskikör hrundu yfir hann, og var vart hugað líf fyrstu vikurnar, svo illa meiddist hann. Með ótrúlegri þrautseigju og jákvæðni tókst Kristjáni að ná það góðri heilsu að hann getur gengið og lifað ágætu lífi þó enn sé töluvert í land að ná fullri heilsu, og óvíst að það takist nokkurn tíma. Kristján ræðir við nemendur og kennarar hlusta af athygli líka


Kristján sagði nemendum frá slysinu, sjúkrahúslegunni og endurhæfingunni og lagði ríka áherslu á hversu jákvæðnin og markmiðssetning hefði hjálpað sér mikið í að ná bata. Hann skoraði á nemendur að líta jákvæðari augum á tilveruna og sjá tækifærin sem væru allt í kringum þá í stað þess að líta neikvæðum augum á þau verkefni sem að höndum bæri hvort sem væri í skólanum eða í hinu daglega lífi. Svo ættu þeir að setja sér markmið að stefna að, byrja á litlum markmiðum sem ekki væri of erfitt að ná og síðan mætti reyna við eitthvað fjarlægara. 

kristjan_005.jpg
Það var þétt setinn bekkurinn en allir fylgdust spenntir með