Um lestur í Grunnskóla Fjallabyggðar

 

Þessa dagana er svokölluð samráðsvika með foreldrum í Grunnskóla Fjallabyggðar. Þá koma börn með foreldrum sínum í viðtal við umsjónarkennara og farið er yfir nokkur atriði í sameiningu, líðan barnanna,  samræður um árangur í læsi, lesfimi og lesskilning og stærðfræði. Hraðapróf í lestri frá Menntamálastofnun eru lögð fyrir í september, janúar og maí og eru framfarir skoðaðar og ræddar við hvern og einn. Einnig eru lesskilningspróf lögð fyrir nemendur, Lesmál í 2. bekk og Orðarún í 3. - 8. bekk tvisvar á skólaárinu, sama má segja lesskilningskannanir fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.               

Ef framvinda bekkja í lestri er skoðuð frá september - janúar má sjá að 7. og 3. bekkur hafa tekið sig mest á. En betur má ef duga skal, við þurfum öll að leggja meira á okkur, lesa meira heima og lesa meira í skólanum til að ná markmiði Hvítbókar um umbætur í menntun.

Rúm þrjú ár eru liðin síðan sveitarfélög í landinu og mennta- og menningarmálaráðuneytið gerðu með sér sáttmála um læsi, Þjóðarsáttmála um læsi til að tryggja að öll börn gætu lesið sér til gagns við lok grunnskólans. Menntamálastofnun hefur umsjón með verkinu og tekur Grunnskóli Fjallabyggðar þátt í þessari þróun með því að nota þau próf og kannanir sem boðið er upp á.

Mikil umræða hefur blossað upp reglulega um að of mikið sé lagt upp úr hraðaprófum á kostnað lesskilnings. En þeir sem kenna lestur vita vel hve lesskilningur er mikilvægur og leggja mikla áherslu á hann. Þessi umræða  hjálpar því börnunum lítið og viljum við mæla með því að allir foreldrar finni tíma til að lesa með börnum sínum á hverjum degi og nota hvert tækifæri til að hlusta á þau við lestrarnámið og tala um innihald bókanna. Þetta á við grunnskólabörn á öllum aldri.

7. bekkur í GF hefur um árabil tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni og nú á þessu skólaári bryddum við upp á nýjung hjá okkur sem er Litla upplestrarkeppnin sem er fyrir nemendur 4. og 5. bekkjar. Verður hún haldin 6. mars n.k. Tilgangur hennar er að æfa vandaðan upplestur í öllum yngri bekkjunum og fá nemendur til að lesa upp sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Góður lesskilningur byggir á því að geta lesið orðin án meðvitaðrar athygli og geta einbeitt sér fullkomlega að efnisinnihaldi textans. Og það sem meira er, einbeiting á innihald textans þarf stöðugt að vera meðvituð. Hvert nýtt atriði eða breyting á því sem áður hefur komið fram í textanum þarf að ná athygli lesandans. Og hann þarf stöðugt að vera fær um að setja nýjar upplýsingar í það samhengi sem fyrir er eða finna út nýtt samhengi með því að draga nýjar ályktanir út frá gefnum upplýsingum. Þannig er lesskilningur eitt samhangandi ferli ályktana í takt við samspil lesandans við efnisinnihald textans. Lesskilningur er því afar flókið og krefjandi ferli sem hægt er að byrja að þjálfa gegnum lestur bóka löngu áður en börn hefja formlegt lestrarnám (Whitehurst og Lonigan, 2002). Lestrarnámið hefst hins vegar á því að kenna barni bókstafina og lögmál þeirra, að lesa úr bókstafstáknunum og skilja hvernig bókstafir tákna hljóð talmálsins.  (Tekið úr Leið til læsis - Handbók)