Norræna skólahlaupið

Síðastliðinn þriðjudag hittust nemendur yngri deilda Grunnskólans í Fjallabyggð og tóku þátt í Norræna skólahlaupinu. Með norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur, kennara og annað starfslið skólanna til þess að æfa hlaup og auka við hreyfingu sína. Lögð er áhersla á að kynna nauðsyn þess að hreyfa sig og reyna á líkama sinn á ýmsan hátt og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Hreystiteymi skólans skipulagði dagskránna sem fór fram á Ólafsfirði. Yngstu krakkarnir hlupu einn góðan hring í kringum Leiftursvöllinn og þau eldru hlupu 2-3 hringi. Einnig var farið reipitog, stórfiskaleik og fótbolta. Veðrið setti smá strik í reikninginn en allir skemmtu sér vel og nutu þess að hreyfa sig. Dagskráin endaði með sundferð og heitum pottum.  Myndir frá þessum degi munu birtast fljótlega á heimasíðu skólans.