Grunnskóli Fjallabyggðar tók þátt í alþjóðlegri áskorun

Þann 15.nóvember tóku nemendur í 6.-7.bekk þátt í Bebrasáskorunni og áttu þau að leysa eins mörg verkefni og þau gátu á 45 mínútum. Nemendur stóðu sig vel og var þetta krefjandi en skemmtileg að þeirra sögn. Áskorunin er fyrir nemendur á aldrinum 8-18 ára. Nemendur leystu krefjandi og áhugaverð verkefni sem byggja á rökhugsun sem notuð er við forritun (e. International Challenge on Informatics and Computational Thinking).

Hvað er Bebras?
Bebras var upphaflega stofnað af Prófessor Valentina Dagiene hjá Háskólanum í Vilnius, en Bebras (e. Beaver) er heitið á dýrinu Bifur á litháísku. Hún fékk hugmyndina þegar hún var að ferðast um Finnland árið 2003 og hugmyndinni er ætlað að vekja áhuga nemenda á því að kynnast upplýsingatækni. Hún ákvað að nýta bifur sem ímynd áskoruninnar vegna þess dugnaðar og fullkomnunaráráttu sem þeir virðast hafa. Bifrar eru duglegir, vinnusamir og gáfaðir; og þeir vinna stöðugt í stíflunum sínum, bæði til að gera þær betri og stærri. Til gamans bendum við á að nóg efni er til á Youtube ef áhugi er fyrir að skoða hvernig bifurinn vinnur - kannski áhugavert þar sem dýrið finnst ekki á Íslandi og þekkja krakkar því ekki dýrið vel.