Ljóðasamkeppni

Líkt og undanfarin ár tóku nemendur í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar þátt í ljóðasamkeppni sem Umf Glói og Ljóðasetur Íslands standa fyrir. Samkeppnin fór fram í lok nóvember og samkvæmt venju var ort út frá listaverkum. Nemendur heimsóttu Menntaskólann á Tröllaskaga þar sem komið hafði verið upp sýningu með nokkrum verkum. Eftir að hafa skoðað þau settust nemendur niður og nýttu það sem þeir lásu út úr myndunum sem kveikjur að ljóðum. Dómnefnd fór yfir afraksturinn.

Í morgun  var síðan komið að verðlaunaafhendingu sem fór fram í Grunnskóla Fjallabyggðar. Það var ánægjulegt að vinningshafar komu úr öllum þremur bekkjum deildarinnar. Fengu þeir ljóðabækur að launum. Vinningshafar voru: Nadía Sól Huldudóttir 8. bekk, Aliki Mavreli 8. bekk, Viljar Þór Halldórsson 9. bekk og Cristina Silvia Cretu 10. bekk.

Hægt er að sjá myndir frá ljóðasamkeppninni og verðlaunaafhendingunni hér

Hér má sjá verðlaunaljóðin:

 

Hendurnar kaldar

 

Hendurnar kaldar

en samt svo hlýjar.

Fullar af myndum,

fullar af kærleika,

fullar af von.

Ég elska.

                        Nadía Sól Huldudóttir

Ljósin á himninum

 

Þegar ljósin á himninum

lýsa upp sál mannsins

lifnar hún við.

 

Ljósin dansa á himninum

og stjörnurnar fylgjast með.

 

Myndavélarnar fanga ljósin

sem dansa á himninum.

                        Aliki Mavreli

Ást

 

Ljósið skín jafn bjart

og hjarta þitt og sál.

Snjórinn jafn tær

og sálin þín.

Ég gæti haldið þér allan daginn

ef ég ætti þig. 

                         Viljar Þór Halldórsson

 

 

Sorg hans

 

Ég geng aftur á jörðinni,

huglaus brúða og strengirnir eru að rifna,

enn með tækifæri til að snúa á rétta leið.

 

Ég er fastur í búri,

enginn sér það ,ekki einu sinni ég.

Ég veit ekki hvað það er,

ég veit ekki hvaðan það kom. 

 

Ég geng aftur á jörðinni. 

                         Cristina Silvia Cretu